29.12.12

Nýliðadagar í krullu 2013

Fyrri hluti janúarmánaðar á nýju ári - 2013 - verður helgaður nýliðum. Nýliðar eru reyndar alltaf velkomnir á svellið til að prófa krullu í æfingatímum krulludeildar, en nú ætlum við að bjóða nýliða velkomna - og sérstaklega konur. Krullufólk með margra ára reynslu af æfingum og keppni hérlendis, sem og reynslu af keppni á mótum erlendis, verður til staðar og leiðbeinir nýliðum um grundvallaratriðin í íþróttinni. Allur búnaður er til staðar og það eina sem gestir þurfa að hugsa um er að mæta í stömum og hreinum íþróttaskóm og helst í íþróttabuxum (ekki gott að spila krullu í gallabuxum svo dæmi sé tekið). Það kostar ekkert að koma og prófa og ef þátttaka verður næg setjum við upp stutta leiki eða jafnvel lítið mót til að fá sem mest út úr þeim leiðbeiningum og æfingum sem fólk fær í fyrsta tímanum. Varúð: Krullan nær tökum á þeim sem koma og prófa. Búðu þig undir að halda áfram og verða forfallið krullufrík... eða þannig. Komdu og prófaðu! Neðar á þessari síðu má m.a. sjá myndir frá konudögum í krullu í janúar 2011 og hér til hliðar eru tenglar á margvíslegan fróðleik um íþróttina.

No comments:

Post a Comment