Hvernig er krulla spiluð? Krulla er íþrótt sem leikin er á sléttum ís. Leikurinn felst í því að 20 kílóa granítsteini er rennt eftir endilangri braut þannig að hann endi sem næst miðju í svokallaðri höfn eða húsi á hinum enda brautarinnar.
Hvaða útbúnað þarf í krullu? Leikmenn eru í sérstökum skóm þar sem sleipur botn er undir öðrum skónum eða venjulegum íþróttaskóm og er þá sleipur sóli settur undir annan skóinn til þess að hann renni betur (á vinstri fæti hjá hægri handar leikmanni og öfugt). Notaðir eru sérstakir kústar, hvort tveggja til að sópa svellið og hita það og líka til stuðnings þegar steini er rennt. Þeir leikmenn sem ekki eiga skó eða kústa geta notað kústa og sóla. Að öðru leyti er aðeins nauðsynlegt að mæta í hlýjum og teygjanlegum fatnaði og stömum og hreinum íþróttaskóm.
Hvernig fer leikur í krullu fram? Tvö lið með fjórum leikmönnum í hvoru liði eigast við í hverjum leik. Fyrirliðinn er yfirleitt nefndur skipper en hann stýrir liðinu og ákveður leiktaktík liðsins í samráði við liðsfélagana. Liðsstjóri stendur í höfn og gefur kastaranum merki um hvar hann vill að steinninn hafni. Þegar steininum er rennt er hann látinn snúast í þá átt sem liðsstjóri skipar fyrir og snýst steinninn á meðan hann rennur yfir leikvöllinn en þaðan er nafnið curling (krulla) komið. Vegna snúningsins fer steinninn ekki beina leið heldur í boga og eykst beygjan eftir því sem steinninn hægir á sér. Í hvert sinn sem leikmaður rennir steini eru tveir liðsfélagar hans tilbúnir með sérstaka kústa. Sópararnir tveir hlýða fyrirmælum liðsstjórans eða ákveða sjálfir hvort þeir eigi að sópa svellið fyrir framan steininn eða ekki. Við það að sópa svellið hitnar efsta lag þess örlítið og steinninn rennur betur yfir en jafnframt beygir hann (krullar) minna eftir því sem hann rennur hraðar.
Hvort lið hefur átta steina og hver leikmaður rennir tveimur steinum í hverri umferð. Í leikjum á Íslandi er venjan að hver leikur sé 6 umferðir eða þá að leikið er í tiltekinn tíma.
Hvernig eru stigin talin? Stig eru talin eftir hverja lotu og það lið sem hefur fleiri stig samanlagt sigrar í leiknum. Í hverri umferð skorar aðeins það lið sem á stein næst miðju þegar umferðinni lýkur og fjöldi stiga ræðst af því hve marga steina liðið á nær miðju hringsins en næsti steinn andstæðingsins. Eigi annað liðið til dæmis þá þrjá steina sem næst eru miðju en hitt liðið þann fjórða þá sigrar það lið sem á steinana þrjá í þeirri lotu og fær þrjú stig. Þannig er hægt að fá allt upp í átta stig í lotu en það er sjaldgæft. Til þess þarf annað liðið að eiga alla sína steina inni í hringnum og innar en steina hins liðsins. Alþjóðlegar reglur í krullu er meðal annars að finna á vef Alþjóða Curling sambandsins.
Hvar er hægt að stunda krullu? Krulla hefur verið spiluð á Akureyri frá 1996. Það var hins vegar ekki fyrr en snemma árs 2000 að hægt var að spila krullu undir þaki þegar Skautahöllin á Akureyri var tekin í notkun. Áður höfðu nokkrir kaldir krulluforkólfar spilað á útisvellinu á Akureyri við misjafnar aðstæður. Í Skautahöllinni á Akureyri eru nú sex krullubrautir og jafnmörg sett af steinum. Tólf lið geta því spilað þar samtímis eða samtals 48 leikmenn. Haustið 2005 hófust krulluæfingar í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík.
Krulludeild SA var stofnuð 22. maí 1996, Krulludeild Þróttar var stofnuð 13. október 2005 og Krulludeild Skautafélagsins Bjarnarins 29. ágúst 2006.
Hverjir geta spilað krullu? Krulla er íþrótt við allra hæfi, ungra sem aldraðra, karla sem kvenna. Engrar sérstakrar líkamsþjálfunar er þörf, því þó steinarnir vegi 20 kg er íþróttin flestum auðveld. Það eru fáar íþróttagreinar sem jafn breiður aldurshópur getur stundað. Jafnt unglingar sem yfir sjötugar konur eða karlar geta stundað þessa íþrótt.
Hvenær er hægt að æfa og spila krullu? Æfingatímar í Skautahöllinni á Akureyri eru á mánudögum kl. 20.00 til 23.00 og miðvikudögum kl. 21:00-23:30. Fólk er eindregið hvatt til þess að koma og kynna sér þessa frábæru íþrótt sem allir geta tekið þátt í. Tilvalið fyrir vinahópa, starfsmannahópa, saumaklúbba, skólafélaga eða hverja sem er að mynda lið.
Hvernig er samstarf við önnur lönd? Ísland er aðili að alþjóðasamtökunum World Curling Fedaration, WCF og evrópska krullusambandinu European Curling Federation. Það var að frumkvæði Kanadamanna að Ísland óskaði eftir aðild að alþjóðasamtökum curling spilara. Raunar voru það Kanadamenn af íslenskum ættum sem höfðu forystu í þessu sambandi og komu fulltrúar þeirra til Íslands til viðræðna við fulltrúa Íþróttasambands Íslands. ÍSÍ skipaði þriggja manna nefnd til þess að fara með málefni sem vörðuðu þessa nýju íþrótt. Árangurinn af þessum viðræðum varð sá að framkvæmdastjóri ÍSÍ sótti aðalfund Alþjóðasamtakanna árið 1991 og var þá gengið formlega frá inngöngu Íslands í samtökin.
Krulla á sér langa og merka sögu og er þessi íþrótt nú iðkuð víða um heim við miklar vinsældir. Upphaf íþróttarinnar má rekja alveg aftur til 15. aldar þar sem krulla var spiluð á frosnum ám og vötnum í Norður-Evrópu. Sjá stuttan fróðleik um krullu á vef Alþjóða Ólympíunefndarinnar hér.