Akureyrskur léttbylur megnaði ekki að halda aftur af áhugasömum konum sem höfðu einsett sér að mæta í Skautahöllina í kvöld og prófa krullu. Sumar voru að prófa í fyrsta skipti, aðrar höfðu komið áður, jafnvel tekið þátt í móti. Allar fimmtán sem mættu virtust skemmta sér vel (eins og væntanlegar myndir bera með sér) og vonandi fáum við þær aftur á svellið.
Næsti tími er miðvikudagskvöldið 5. janúar kl. 21, en eyndar byrjum við ekki á svellinu fyrr en um 21.30 en gott er fyrir þær sem mæta í fyrsta skipti að koma tímanlega til að fá smá fyrirlestur um það út á hvað íþróttin gengur. Við bjóðum að sjálfsögðu allar sem komu í kvöld velkomnar aftur á svellið sem og allar konur sem langar til að koma og prófa. Við höldum svo áfram á sömu tímum, mánudags- og miðvikudagskvöldum í næstu viku.
Eins og fram kom í kvöld er hugmyndin að setja upp stutt mót fyrir þær sem vilja og verður framhaldið einfaldlega metið út frá mætingunni núna í vikunni og næsta mánudagskvöld. Ef af móti verður er það að sjálfsögðu opið öllum konum, líka þeims em eru að koma í fyrsta skipti.
Það kom okkur líka skemmtilega á óvart að frétta að Flugfélag Íslands notaði þetta átak okkar til að markaðssetja tilboð á flugi til Akureyrar - sjá hér.
Við ykkur sem komið í kvöld segjum við einfaldlega: Takk fyrir komuna og skemmtilega kvöldstund, komið endilega aftur og takið vinkonurnar með.
No comments:
Post a Comment