11.1.11

Snjóalög fækka þátttakendum - en stöðvar ekki allar

Ófærð og veðurútlit höfðu einhver áhrif á mætinguna í gærkvöldi. Heiðdís og Steinunn mættu galvaskar og teljast nú orðnar "vanar" því þetta var væntanlega annað eða þriðja skiptið hjá þeim báðum. Díana mætti í fyrsta skipti og eftir fimm mínútna leiðsögn hóf hún keppni í sínu fyrsta móti - og þær Heiðdís og Steinunn einnig. Þeim var nefnilega skellt í lið og spiluðu sex umferða leik í annarri umferð Nýársmóts Krulludeildarinnar. Rétt er að vekja athygli á því að Nýársmótið er opið mót og því geta allar sem vilja mætt og verða þá dregnar í lið.

Við viljum því hvetja konur til að mæta á mánudags- og miðvikudagskvöldum, bæði þær sem hafa komið og prófað og hinar sem ekki hafa látið verða af því hingað til. Til að gefa æfingunum fram að þessu smá aukið vægi verður í næstu viku væntanlega boðið upp á einhvers konar keppni. Ekki er víst um formið á slíku móti en það fer dálítið eftir áhuga. Hugsanlega verða þær konur sem hafa áhuga einfaldlega teknar inn í Nýársmótið en einnig er möguleiki að sett verði upp stutt mót eingöngu ætlað konum. Laugardagskvöldið 22. janúar er frátekið í Skautahöllinni fyrir krullufólk og verðum við þar væntanlega frá kl. 18 eða svo. Nánar verður sagt frá áformum um æfingar og keppni næstu viku núna á miðvikudaginn en þá verður væntanlega fundað í stjórn og mótanefnd og næsta vika skipulögð.

Þið sem hafið verið að mæta á svellið - eða hafið áhuga á að mæta - og lesið þetta megið gjarnan hafa samband og láta vita hvort þið hafið áhuga á að taka þátt í einhvers konar keppni í næstu viku og taka þá fram á hvaða dögum þið mynduð geta mætt, þ.e. mánudag 17. janúar kl. 20, miðvikudag 19. janúar kl. 21 og laugardag 22. janúar kl. 18 eða síðar (tímasetning óákveðin). Við munum einfaldlega skipuleggja keppni í samræmi við mætingu, áhuga og ykkar óskir.

Fjórar leiðir til að láta vita: Kvitta undir þessa færslu, kvitta á síðu Krulludeildarinnar á Facebook, hringja í Harald í síma 824 2778 eða senda tölvupóst í haring@simnet.is.

No comments:

Post a Comment