29.12.12

Nýliðadagar í krullu 2013

Fyrri hluti janúarmánaðar á nýju ári - 2013 - verður helgaður nýliðum. Nýliðar eru reyndar alltaf velkomnir á svellið til að prófa krullu í æfingatímum krulludeildar, en nú ætlum við að bjóða nýliða velkomna - og sérstaklega konur. Krullufólk með margra ára reynslu af æfingum og keppni hérlendis, sem og reynslu af keppni á mótum erlendis, verður til staðar og leiðbeinir nýliðum um grundvallaratriðin í íþróttinni. Allur búnaður er til staðar og það eina sem gestir þurfa að hugsa um er að mæta í stömum og hreinum íþróttaskóm og helst í íþróttabuxum (ekki gott að spila krullu í gallabuxum svo dæmi sé tekið). Það kostar ekkert að koma og prófa og ef þátttaka verður næg setjum við upp stutta leiki eða jafnvel lítið mót til að fá sem mest út úr þeim leiðbeiningum og æfingum sem fólk fær í fyrsta tímanum. Varúð: Krullan nær tökum á þeim sem koma og prófa. Búðu þig undir að halda áfram og verða forfallið krullufrík... eða þannig. Komdu og prófaðu! Neðar á þessari síðu má m.a. sjá myndir frá konudögum í krullu í janúar 2011 og hér til hliðar eru tenglar á margvíslegan fróðleik um íþróttina.

20.1.11

Opið Þorramót í krullu 2011

Krulludeild SA stendur fyrir opnu Þorramóti í krullu laugardaginn 22. janúar í Skautahöllinni á Akureyri. Allir velkomnir. Tímasetning mótsins mun taka mið af því hvenær íslenska karlalandsliðið í handbolta leikur gegn Þjóðverjum á laugardaginn.

Nánari upplýsingar um mótið á Facebook hérna eða á vef Krulludeildar SA hérna.

11.1.11

Snjóalög fækka þátttakendum - en stöðvar ekki allar

Ófærð og veðurútlit höfðu einhver áhrif á mætinguna í gærkvöldi. Heiðdís og Steinunn mættu galvaskar og teljast nú orðnar "vanar" því þetta var væntanlega annað eða þriðja skiptið hjá þeim báðum. Díana mætti í fyrsta skipti og eftir fimm mínútna leiðsögn hóf hún keppni í sínu fyrsta móti - og þær Heiðdís og Steinunn einnig. Þeim var nefnilega skellt í lið og spiluðu sex umferða leik í annarri umferð Nýársmóts Krulludeildarinnar. Rétt er að vekja athygli á því að Nýársmótið er opið mót og því geta allar sem vilja mætt og verða þá dregnar í lið.

Við viljum því hvetja konur til að mæta á mánudags- og miðvikudagskvöldum, bæði þær sem hafa komið og prófað og hinar sem ekki hafa látið verða af því hingað til. Til að gefa æfingunum fram að þessu smá aukið vægi verður í næstu viku væntanlega boðið upp á einhvers konar keppni. Ekki er víst um formið á slíku móti en það fer dálítið eftir áhuga. Hugsanlega verða þær konur sem hafa áhuga einfaldlega teknar inn í Nýársmótið en einnig er möguleiki að sett verði upp stutt mót eingöngu ætlað konum. Laugardagskvöldið 22. janúar er frátekið í Skautahöllinni fyrir krullufólk og verðum við þar væntanlega frá kl. 18 eða svo. Nánar verður sagt frá áformum um æfingar og keppni næstu viku núna á miðvikudaginn en þá verður væntanlega fundað í stjórn og mótanefnd og næsta vika skipulögð.

Þið sem hafið verið að mæta á svellið - eða hafið áhuga á að mæta - og lesið þetta megið gjarnan hafa samband og láta vita hvort þið hafið áhuga á að taka þátt í einhvers konar keppni í næstu viku og taka þá fram á hvaða dögum þið mynduð geta mætt, þ.e. mánudag 17. janúar kl. 20, miðvikudag 19. janúar kl. 21 og laugardag 22. janúar kl. 18 eða síðar (tímasetning óákveðin). Við munum einfaldlega skipuleggja keppni í samræmi við mætingu, áhuga og ykkar óskir.

Fjórar leiðir til að láta vita: Kvitta undir þessa færslu, kvitta á síðu Krulludeildarinnar á Facebook, hringja í Harald í síma 824 2778 eða senda tölvupóst í haring@simnet.is.

10.1.11

Áfram, áfram!

Átakið heldur áfram og er eiginlega að hætta að vera átak og verða að daglegu starfi Krulludeildar. Í kvöld - mánudagskvöldið 10. janúar - verður nóg um að vera á svellinu. Annars vegar er í gangi mót á vegum Krulludeildarinnar og hins vegar verður tekið sérstaklega vel á móti konum sem vilja koma og prófa. Athygli er vakin á því að ALLAR KONUR eru velkomnar, jafnt þær sem koma í fyrsta skipti sem og þær sem hafa kíkt áður.

3.1.11

Fimmtán konur í fyrsta tímanum

Akureyrskur léttbylur megnaði ekki að halda aftur af áhugasömum konum sem höfðu einsett sér að mæta í Skautahöllina í kvöld og prófa krullu. Sumar voru að prófa í fyrsta skipti, aðrar höfðu komið áður, jafnvel tekið þátt í móti. Allar fimmtán sem mættu virtust skemmta sér vel (eins og væntanlegar myndir bera með sér) og vonandi fáum við þær aftur á svellið.

Næsti tími er miðvikudagskvöldið 5. janúar kl. 21, en eyndar byrjum við ekki á svellinu fyrr en um 21.30 en gott er fyrir þær sem mæta í fyrsta skipti að koma tímanlega til að fá smá fyrirlestur um það út á hvað íþróttin gengur. Við bjóðum að sjálfsögðu allar sem komu í kvöld velkomnar aftur á svellið sem og allar konur sem langar til að koma og prófa. Við höldum svo áfram á sömu tímum, mánudags- og miðvikudagskvöldum í næstu viku.

Eins og fram kom í kvöld er hugmyndin að setja upp stutt mót fyrir þær sem vilja og verður framhaldið einfaldlega metið út frá mætingunni núna í vikunni og næsta mánudagskvöld. Ef af móti verður er það að sjálfsögðu opið öllum konum, líka þeims em eru að koma í fyrsta skipti.

Það kom okkur líka skemmtilega á óvart að frétta að Flugfélag Íslands notaði þetta átak okkar til að markaðssetja tilboð á flugi til Akureyrar - sjá hér.

Við ykkur sem komið í kvöld segjum við einfaldlega: Takk fyrir komuna og skemmtilega kvöldstund, komið endilega aftur og takið vinkonurnar með.

2.1.11

Sjáumst á svellinu - mánudagskvöld 3. janúar kl. 20

Fyrsta kvöldið í þessu kynningarátaki - Á svellið stelpur - verður annað kvöld, mánudagskvöldið 3. janúar. Reyndar er rétt að taka fram að það verða einnig karlar á svellinu, það fer einfaldlega eftir mætingu hjá konunum hve margar brautir við tökum undir það að kynna íþróttina fyrir konum.

Þær sem vilja mæta og prófa eru ekki bundnar af neinu, geta verið eins stutt eða lengi og þær vilja og mætt bara í þetta eina sinn eða komið oftar. Og þó þú komist ekki fyrsta gerir það ekkert til, þá er bara að mæta á miðvikudagskvöldið í staðinn, eða í næstu viku.

Fyrstu tímarnir verða semsagt:
Mánudagur 3. janúar kl. 20.00-22.30
Miðvikudagur 5. janúar kl. 21.00-23.00

Munið bara að mæta í hreinum og stömum íþróttaskóm og best er að vera í teygjanlegum buxum.

Sjáumst á svellinu!